Hagholt

Hagholt heitir rismikil hæð í landinu heima. Að hluta er hún klettar og malarkambur ísaldar en að hluta vel gróin. Jökulsáin girðir hana af á aðra hlið en Bláarmegin við hana er gamall, siginn torfgarður sem vitnar um notkun holtsins sem haga fyrr á tíð. Örfáir birkirunnar eru enn austan í holtinu sem hefur verið skógi vaxið fyrir þúsund árum eins og nafnið gefur til kynna. Þegar bílar komu til sögunnar í Hróarstungu var vegur lagður eftir sandorpnum bökkum og malarkömbum við Jökulsána. Drunur bílanna bergmáluðu í klöppunum þar sem þeir mjökuðust yfir holtið og niður af því aftur. Þar tók við timburræsi sem stundum var erfitt að komast yfir.

Vegurinn þessi var löngu gróinn þegar ég fór að þeysa á Hondu SS 50 yfir þetta sama ræsi og sorfnar klappir Hagholtsins. Stundum stoppaði ég uppi á holtinu og hlustaði á vindinn leika á raflínuna sem lá yfir í Hlíð, strekkt yfir úfna Jökulsána.

Smáprósar

Leave a Reply

%d bloggers like this: