Hvarf
Frá bænum heima liggja grónar götur að vörðu sem ber við himin. Hæðin sem varðan stendur á kallast Hvarf. Sá sem yfir hana fer er horfinn þeim sem stendur heima á hlaði. Þegar ég var lítill og rifrildi heima í bæ hljóp ég stundum yfir hæðina og lét mig hverfa í nokkra klukkutíma. En ég kom alltaf til baka eins og flestir vinnumennirnir sem forðum gengu daglega út fyrir Hvarf til að gefa á beitarhúsunum á Geirstöðum.