Smjörfjöll
Mig dreymdi sama drauminn trekk í trekk í æsku. Mig dreymdi að stór farþegaflugvél brotlenti skammt frá bænum og við björguðum fólki úr brennandi flakinu. Hrafnager hnitaði hringi yfir okkur á meðan við fluttum veinandi farþega inn í gömlu fjárhúsin, lögðum þá í garðana og á þurrt taðið í krónum. Björgunarliðið var lengi á leiðinni og úr skúmaskotum fjárhúsanna komu indíánar úr öðrum draumi sem náðu sér fyrirhafnarlítið í nokkur góð höfuðleður. Þegar ég var tíu ára varð raunverulegt flugslys norður í Smjörfjöllum. Þá hlustaði ég á samskipti lögreglu og leitarmanna í stuttbylgjuútvarpi afabróður míns. Þrír létust og sá yngsti hét Hrafn.